• Print

tannáverkar

 

Meðal algengustu áverka við slys, eru tannáverkar.  Tannáverkar eru mjög mismunandi, allt frá minniháttar brotum á tönnum uppí þá alvarlegustu þegar tennur falla alveg úr.  Rétt viðbrögð í fyrstu hjálp og síðan í meðferð tannlæknis skipta sköpum hvort hægt sé að bjarga tönnum. 

ÁVERKAR Á BARNATENNUR

Mjög algengt er að ung börn  verði fyrir áverkum á tennur.  Ávallt skal leita ráða tannlæknis þegar tönn/tennur verða fyrir áverka.  Áverkar eru oftast frá minniháttar blæðingum kringum tennur og tannhold, að brotum á krónuhluta tannar eða brotum sem ná inn í taug.  Alvarlegustu áverkar eru þegar tennur kýlast djúpt upp í tannhold og bein eða falla úr.  Aldrei skal reyna að koma brottfallinni barnatönn í stæði sitt aftur.  Yfirleitt eru ekki gerðar rótfyllingar á barnatönnum en algengt er að þær dökkni og má líkja því við að tönnin sé með marblett inni í taugaholi sem litar tönnina dökka.  Gráar barnatennur eru oftast nær einkennalausar en geta fengið sýkingu við rót og þá er nauðsynlegt að fjarlægja tönnina.

ÁVERKAR Á FULLORÐINSTENNUR

Áverkar á fullorðinstennur eru alltaf alvarlegir og eru oft flóknir úrlausnar.  Geta áverkar verið allt frá minniháttar blæðingu við tannhold, los á tönn eða minniháttar broti á glerungi tannar; upp í meiriháttar brot á krónu með opi inn í taug tannar, broti á rótum tanna eða brottfalli.  Meginreglan er sú að tannlæknar reyna allt sem í þeirra valdi stendur til að bjarga fullorðinstönnum. 

Mikilvægi fullorðinstanna verður seint metið til fullnustu en meðferð eftir ótímabært brottfall fullorðinstannar hjá barni eða unglingi er meðal flóknustu tannlæknisverka.  Þar þarf að hafa í huga þróun og þroska tannsettsins og kjálkabeina, en beinvöxtur verður aldrei eðlilegur nema tennur séu til staðar.

Fyrstu viðbrögð við tannáverkum skipta sköpum í horfum meðferðar.  Oft er talað um fyrstu stundar viðbrögð en það þýðir hvað er gert á fyrsta klukkutímanum eftir tannáverkann.  Falli tönn úr munni verður að koma henni í stæði sitt helst innan við hálftíma eftir brottfall eigi að takast að bjarga henni.  Tönnum sem losna eða færast til þarf að koma á sinn stað og spelka líkt og um almenn beinbrot.  Séu tafir á að tannlæknir sjái sjúklinginn,  getur bólga og blæðing komið í veg fyrir að meðferð takist vel.

TANNBROT – RÓTARBROT

Minnstu áverkar lýsa sér oft með sprungum í krónuhluta, þessar sprungur geta verið minniháttar en tennur geta engu að síður orðið viðkvæmar við kulda.  Oftast er mælt með að „þétta“ sprungur í glerungi  með því að setja sérstakt plastefni á yfirborðið.

Þegar tennur brotna er oft hægt að líma tannbrot á sinn stað aftur.  Er það í raun besta meðferðin þegar um einfalt tannbrot er að ræða.  Því er mikilvægt að leita tannbrot uppi á slysstað og koma með þau til tannlæknis.  Finnist tannbrot ekki er tönn lagfærð með plastfyllingu.

Flókin tannbrot kallar tannlæknir það þegar brot nær inn í taug tannar.  Þá þarf að gera viðeigandi meðhöndlun á broti og krefst það oft þess að rótfylling sé gerð í tönn.  Þá skiptir miklu máli hversu fljótt tannlæknir sér sjúkling því taugahol tannar getur sýkst af bakteríum úr munnholi sé taugaholið opið í lengri tíma.  Þarna á fyrstu stundar reglan við.

Rótarbrot geta orðið þegar tennur verða fyrir höggi.  Nauðsynlegt er því að tannlæknir taki röntgenmyndir af tönnum.  Rótarbrot eru mjög alvarlegir áverkar sem geta leitt til ótímabærs taps á tönnum.  Tennur sem verða fyrir rótarbrotum þarf undantekningarlaust að rótfylla.

HLIÐARFÆRSLA Á TÖNNUM 

Hliðarfærsla á tönnum er þegar tönn færist til í stæði sínu. Þá færist rótarendi úr stað og æðar og taugar sem liggja í tönnina eyðileggjast.  Getur tönnin þá komið í veg fyrir að samanbit er rétt.  Mjög mikilvægt er að koma tönn fyrir á réttan stað sem allra fyrst og spelka tönnina við aðliggjandi tennur.  Síðan þarf undantekningarlaust að rótfylla tönn.  Alvarlegustu hliðarfærslum á tönnum getur fylgt brot á aðliggjandi kjálkabeini.

BROTTFALL TANNA

Alvarlegustu tannáverkar eru þegar tennur falla úr munni eða losna því sem næst alveg úr.  Þá skiptir öllu máli að fyrsta hjálp sé rétt.  Best er að koma tönnum strax í tannholu aftur en ekki treysta allir sér til þess og skal þá huga að því að koma tönn á öruggan stað, annað hvort í munni – milli kinnar og tanna – eða í mjólk.  Hafa síðan strax samband við tannlækni og koma sjúklingi til hans eins fljótt og mögulegt er.  Tannlæknir kemur tönn á réttan stað og spelkar tennur saman.  Tennur þarf síðan undantekningarlaust að rótfylla og er það venjulega gert nokkrum dögum seinna og krefst nokkurra heimsókna.

Óhætt er að mæla tenglinum: http://www.dentaltraumaguide.org/ en á síðunni er farið yfir hver eru rétt viðbrögð við tannáverkum.